Messi kominn með 700 mörk

Lionel Messi skorar 700. markið á ferlinum.
Lionel Messi skorar 700. markið á ferlinum. AFP

Barcelona og Atlético Madrid skildu jöfn, 2:2, er liðin mættust í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Lionel Messi skoraði sitt 700. mark á ferlinum er hann kom Barcelona í 2:1. 

Barcelona komst yfir á 11. mínútu er framherjinn Diego Costa skoraði sjálfsmark á 11. mínútu. Vont varð verra hjá Costa á 16. mínútu er honum mistókst að skora úr vítaspyrnu. Atlético fékk hins vegar aðra vítaspyrnu þremur mínútum síðar sem Saúl Niguez skoraði úr og var staðan í hálfleik 1:1. 

Strax á fimmtu mínútu í seinni hálfleik fékk Barcelona sitt fyrsta víti í leiknum og úr því skoraði Lionel Messi er hann vippaði boltanum á mitt markið. Hefur Messi nú skorað 630 mörk fyrir Barcelona og 70 mörk fyrir argentínska landsliðið, alls 700 mörk. 

Því miður fyrir Messi þá gat hann ekki fagnað áfanganum með sigri því Atlético fékk þriðju vítaspyrnuna sína og þá fjórðu í leiknum á 62. mínútu. Niguez fór aftur á punktinn og skoraði sitt annað mark og 2:2-jafntefli varð niðurstaðan. 

Barcelona er í öðru sæti með 70 stig, einu stigi á eftir Real Madrid. Atlético er í þriðja sæti með 59 stig. 

mbl.is