Sautjánda mark Kjartans reyndist ekki nóg

Kjartan Henry Finnbogason í leik með Vejle.
Kjartan Henry Finnbogason í leik með Vejle. Ljósmynd/Vejle

Kjartan Henry Finnbogason bætti við forskotið sem markahæsti leikmaður dönsku B-deildarinnar í knattspyrnu í dag þegar hann skoraði fyrir Vejle gegn HB Köge á útivelli.

Kjartan skoraði sitt 17. mark fyrir Vejle á tímabilinu en hann hóf þó leikinn á varamannabekknum. Honum var skipt inná á 58. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar kom Kjartan liði Vejle yfir með laglegu skallamarki eftir fyrirgjöf færeyska landsliðsmannsins Viljorms Davidsens.

Það dugði þó ekki til því HB Köge skoraði tvívegis og vann leikinn 2:1. Þar með er útlit fyrir að forskot Vejle í deildinni minnki en liðið var með átta stiga forystu á toppi deildarinnar fyrir leiki dagsins. Aðeins eitt lið kemst upp í úrvalsdeildina vegna fækkunar liða þar úr fjórtán í tólf en fimm umferðum er ólokið í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert