Eggert og Ísak danskir bikarmeistarar

Byrjunarlið SönderjyskE fyrir leikinn í kvöld. Eggert Gunnþór Jónsson er …
Byrjunarlið SönderjyskE fyrir leikinn í kvöld. Eggert Gunnþór Jónsson er þriðji frá hægri í aftari röðinni. Ljósmynd/SönderjyskE

Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson og Keflvíkingurinn Ísak Óli Ólafsson eru danskir bikarmeistarar í knattspyrnu en lið þeirra  SönderjyskE sigraði AaB frá Álaborg, 2:0, í úrslitaleik bikarkeppninnar sem fram fór í Esbjerg í kvöld.

Eggert lék í vörn SönderjyskE í kvöld en var skipt af velli á 63. mínútu. Þá hafði hann fengið að líta gula spjaldið. Ísak var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.

Anders K. Jacobsen var hetja Suðurjótanna en hann skoraði bæði mörk liðsins, á 38. og 56. mínútu. Á 65. mínútu missti liðið mann af velli þegar Julius Eskesen fékk rauða spjaldið en liðið hélt fengnum hlut.

Þetta er fyrsti stóri titillinn í sögu SönderjyskE og liðið hefur nú tryggt sér sæti í undankeppni Evrópudeildar UEFA í haust. Liðið er enn ekki öruggt með að halda sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni.

mbl.is