Fyrirliðinn til liðs við Evrópumeistarana

Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Lyon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, er gengin til liðs við Evrópumeistara Lyon en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Sara Björk er 29 ára gömul en hún skrifar undir tveggja ára samning við franska 1. deildarfélagið sem gildir til sumarsins 2022.

Sara Björk kemur til félagsins frá Wolfsburg þar sem hún hefur leikið frá 2016 en hún hefur fjórum sinnum orðið Þýskalandsmeistari með liðinu og þrívegis bikarmeistari. Áður en hún gekk til liðs við Wolfsburg lék hún með Rosengård í Svíþjóð frá 2011 til 2016 þar sem hún var fjórum sinnum Svíþjóðarmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Lyon er sterkasta kvennalið heims en liðið hefur unnið frönsku 1. deildina fjórtán ár í röð. Liðið varð  Frakklandsmeistari í fyrsta sinn árið 2007 en hefur unnið deildina samfleytt síðan þá. Þá hefur franska liðið haft algjöra yfirbyrði í Meistaradeild Evrópu undanfarin ár en liðið hefur unnið keppnina fjögur ár í röð, frá 2016 til ársins 2019, og Sara gæti unnið Evrópumeistaratitilinn 2020 með liðinu síðar á þessu ári.

Alls hefur Lyon sex sinnum orðið Evrópumeistari en ekkert lið hefur unnið keppnina oftar frá því að hún var sett á laggirnar tímabilið 2001-02. Sara Björk á að baki 131 A-landsleik þar sem hún hefur skorað 20 mörk en hún tók við fyrirliðabandinu hjá íslenska landsliðinu árið 2017. Sara Björk er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði en hún lék með Breiðabliki í þrjú tímabil áður en hún hélt út í atvinnumennsku.

mbl.is