Martröð hjá Birki í Mílanó

Danilo D'Ambrosio skorar þriðja mark Inter í kvöld án þess …
Danilo D'Ambrosio skorar þriðja mark Inter í kvöld án þess að finnski markvörðurinn Jesse Joronen í marki Brescia fái rönd við reist. AFP

Inter Mílanó lék Birki Bjarnason og samherja hans í Brescia grátt í kvöld þegar liðin mættust í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu.

Birkir hóf leikinn á varamannabekknum en var skipt inná í upphafi síðari hálfleiks. Þá var staðan þegar orðin 3:0 fyrir Inter en Ashley Young, Alexis Sánchez og Danilo D'Ambrosio skoruðu mörkin.

inter bætti þremur mörkum við í seinni hálfleik, Roberto Gagliardini, Christian Eriksen og Antonio Candreva voru þar á ferð og lokatölur því 6:0.

Staða Brescia versnar enn á botninum en liðið er með 18 stig eins og SPAL í tveimur neðstu sætunum. Átta stig eru í lið Genoa sem er næst fyrir ofan fallsæti deildarinnar.

Inter er hinsvegar með 64 stig í þriðja sætinu, á eftir Juventus, sem er með 72 stig og Lazio sem er með 68 stig.

Andri Fannar Baldursson sat allan tímann á varamannabekk Bologna sem fékk Cagliari í heimsókn en liðin skildu jöfn, 1:1. Bologna er með 38 stig í ellefta sæti deildarinnar.

mbl.is