Útilokar endurkomu Sancho

Jadon Sancho er uppalinn hjá Manchester City.
Jadon Sancho er uppalinn hjá Manchester City. AFP

Jadon Sancho, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, mun ekki ganga til liðs við Manchester City á meðan Pep Guardiola er knattspyrnustjóri liðsins en þetta staðfesti Spánverjinn í samtali við Sky Sports. Sancho vill snúa aftur til Englands en hann er uppalinn hjá Manchester City.

Sóknarmaðurinn sem er tvítugur að árum gekk til liðs við Dortmund árið 2017 þar sem hann hefur slegið í gegn og stimplað sig inn sem einn af betri kantmönnum deildarinnar. Hann hefur hins vegar fengið nóg í Þýskalandi og er félagið tilbúið að selja hann í sumar fyrir rúmlega 100 milljónir punda.

Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United en fá lið í heiminum í dag hafa efni á leikmanninum. „Sancho er ekki að koma aftur til City,“ sagði Guardiola. „Hann vildi fara frá City á sínum tíma og af hverju ætti hann þá að vilja snúa aftur? Við vildum halda honum og hann vissi það.

Hann hefði getað haldið kyrru fyrir eins og Eric Garcia eða Phil Foden en hann tók þá ákvörðun, líkt og ég og Leroy Sané, að fara til annars lands. Hann fór af því að hann vildi ekki vera hjá City og ég sé þess vegna ekki af hverju hann ætti að snúa aftur hingað þegar hann vildi ekki vera hérna til að byrja með,“ bætti Guardiola við.

mbl.is