Bayern bikarmeistari í tuttugasta skipti

Leikmenn Bayern fagna í dag.
Leikmenn Bayern fagna í dag. AFP

Bayern München er þýskur bikarmeistari í fótbolta annað árið í röð og tuttugasta skipti alls eftir 4:2-sigur á Bayer Leverkusen á Ólympíuleikvanginum í Berlín í dag. 

Bayern var með 2:0-forskot í hálfleik en David Alaba skoraði fyrsta markið úr fallegri aukaspyrnu. Serge Gnabry bætti við öðru marki á 24. mínútu er hann slapp einn í gegn eftir sendingu Joshua Kimmich. 

Póslki markahrókurinn Robert Lewandowski bætti við þriðja marki Bayern á 59. mínútu með langskoti. Skaut hann beint á finnska landsliðsmarkvörðinn Lukás Hrádecký af löngu færi en sá finnski missti boltann afar klaufalega úr höndunum og í markið. 

Sven Bender gaf Leverkusen smá von á 63. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en það dugði skammt því Lewandowski skoraði sitt annað mark á 89. mínútu eftir sendingu frá Ivan Perisic.

Kai Havertz lagaði stöðuna í uppbótartíma en 4:2-sigur Bayern varð staðreynd og hefur liðið því unnið tvöfalt tvö ár í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert