Einn sá eftirsóttasti má fara frá Þýskalandi

Kai Havertz hefur verið orðaður við stærstu félög Evrópu undanfarnar …
Kai Havertz hefur verið orðaður við stærstu félög Evrópu undanfarnar vikur. AFP

Kai Havertz, einn eftirsóttasti knattspyrnumaður í heiminum í dag, má yfirgefa þýska 1. deildarfélagið Bayer Leverkusen í sumar en þetta staðfesti Rudi Völler, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, í samtali við þýska miðilinn Bild á dögunum. Havertz er einungis 21 árs gamall en hann er uppalinn hjá Leverkusen.

Hann hefur verið orðaður við lið á borð við Liverpool, Manchester United, Chelsea og Real Madrid á Spáni að undanförnu. Þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki 147 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 44 mörk og lagt upp 31 mark fyrir liðsfélaga sína. Þá hefur hann leikið sjö landsleiki fyrir Þýskaland þar sem hann hefur skorað eitt mark.

„Það hefur ekkert tilboð borist í Havertz að svo stöddu,“ sagði Völler í samtali við Bild. „Eins og staðan er í dag þá er hann bara leikmaður Leverkusen og honum líður vel hérna. Við þekkjum hann út og inn og vonandi tekur hann ár í viðbót með okkur. Hann má hins vegar fara í sumar, ef það hentar bæði honum og félaginu,“ bætti Völler við en Havertz er metinn á 80 milljónir evra.

mbl.is