Ronaldo skaut Emil og félögum áfram

Emil Hallfreðsson í leiknum í kvöld.
Emil Hallfreðsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/@PadovaCalcio

Emil Hallfreðsson og liðsfélagar hans í ítalska knattspyrnufélaginu Padova eru komnir áfram í sextán liða úrslit umspils um laust sæti í B-deildinni þar í landi eftir 1:0-sigur gegn Feralpisaló í 32-liða úrslitum á Comunate Euganeo-vellinum í Padova í dag.

Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Padova í dag og lék allan leikinn á miðsvæðinu en það var hinn brasilíski Ronaldo Pompeu sem skoraði sigurmark leiksins fyrir Padova á 69. mínútu. Ekki er ennþá ljóst hver andstæðingur Padova verður i sextán liða úrslitum umspilsins.

Emil gekk til liðs við C-deildarfélagið í byrjun janúar og hefur leikið átta leiki með liðinu en C-deildin fór í rúmlega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Ákveðið var að aflýsa deildarkeppninni eftir hlé og hefja umspilið strax en tvö lið komast áfram úr umspilinu upp í B-deildina.

mbl.is