Aðeins eitt lið hagnast á VAR

Sergio Ramos fagnar sigurmarki úr vítaspyrnu gegn Getafe.
Sergio Ramos fagnar sigurmarki úr vítaspyrnu gegn Getafe. AFP

Josep Bartomeu, forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er ekki sáttur við VAR, myndbandsdómgæslu, í spænsku deildinni og segir hann aðeins eitt lið hagnast á tækninni. 

Real Madríd vann 1:0-útisigur á Athletic Bilbao í gær og skoraði Sergio Ramos sigurmarkið úr vítaspyrnu í seinni hálfleik. Skömmu eftir markið vildu leikmenn Bilbao fá víti, en ekkert var dæmt. 

„Mér líður illa því við spilum í bestu deild í heimi og VAR hefur ekki verið sanngjarnt eftir að deildin fór af stað á ný. Tæknin hefur ráðið úrslitum og aðeins eitt lið er að hagnast,“ sagði Bartomeu við Sport. 

Hefur Real Madrid unnið alla sjö leiki sína eftir að deildin fór af stað á ný eftir kórónuveirufrí og fengið þrjú víti á þeim tíma. Hefur liðið unnið tvo leiki í röð 1:0 þar sem sigurmarkið kemur úr víti. 

Real Madrid er með 77 stig í toppsætinu og Barcelona með 73 í öðru sæti þegar fjórar umferðir eru eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert