Lána Hafnfirðinginn í hálft ár

Teitur Magnússon kom til OB fyrir ári síðan.
Teitur Magnússon kom til OB fyrir ári síðan. Ljósmynd/OB

Danska knattspyrnufélagið OB skýrði frá því í dag að varnarmaðurinn Teitur Magnússon verði lánaður til C-deildarliðsins Middelfart næsta hálfa árið, eða til næstu áramóta.

Teitur kom til OB frá FH í júlí 2019 en hann er nýorðinn 19 ára og á að baki 20 leiki með yngri landsliðum Íslands. Þá hefur hann spilað einn úrvalsdeildarleik með FH og var hálft tímabil í láni hjá Þrótti í Reykjavík í 1. deildinni 2018.

Hann varð á dögunum danskur meistari í U19 ára liðum með OB en aðallið félagsins hafnaði um miðja dönsku úrvalsdeildina í sumar og er á leið í umspil um Evrópusæti.

Á heimasíðu OB segir að Teitur hafi verið fyrsti erlendi leikmaðurinn sem fenginn hafi verið til unglingaliðs félagsins og með því að lána hann til Middelfart sé verið að gefa honum frekari tækifæri til að taka framfarir í meistaraflokkskeppni. Middelfart hafnaði í þriðja sæti í úrslitakeppni dönsku C-deildarinnar sem lauk um helgina og missti naumlega af sæti í B-deildinni.

Middelfart er frá samnefndum bæ á vesturodda dönsku eyjunnar Fjóns, við Litlabeltisbrúna yfir á Jótland. Þaðan er skammt til Óðinsvéa, heimaborgar OB og höfuðstaðar Fjóns, og því ekki langt fyrir Teit að fara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert