Keyptur á 70 milljónir króna af grísku stórveldi

Ögmundur Kristinsson
Ögmundur Kristinsson Ljósmynd/Larissa

Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson mun ganga til liðs við gríska knattspyrnufélagið Olympiacos þegar yfirstandandi tímabili lýkur í grísku úrvalsdeildinni en Grikklandsmeistararnir borguðu tæplega 70 milljónir íslenskra króna fyrir leikmanninn í gær.

Ögmundur, sem er 31 árs gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Olympiacos en félagið er sigursælasta lið Grikklands frá upphafi með 45 meistaratitla og staðsett í Piraeus, hafnarborg grísku höfuðborgarinnar Aþenu.

Ögmundur er annar Íslendingurinn í herbúðum félagsins en Alfreð Finnbogason lék með liðinu fyrri hluta tímabilsins 2015-16 sem lánsmaður frá Real Sociedad.

Markvörðurinn býr í Larissa og mun því flytjast búferlum í sumar en hann er uppalinn hjá Fram og hefur leikið með Randers í Danmörku, Hammarby í Svíþjóð, Excelsior í Hollandi og Larissa í Grikklandi á atvinnumannsferli sínum sem hófst árið 2014.

„Ég er virkilega stoltur og mjög ánægður með þessi skipti,“ sagði Ögmundur í samtali við Morgunblaðið. „Þetta er risastórt lið, bæði í Grikklandi og í Evrópu. Þetta er sögufrægt félag með fjölda stuðningsmanna og þetta eru virkilega spennandi tímar. Mér hefur gengið virkilega vel hjá Larissa frá því ég gekk til liðs við félagið árið 2018 en á sama tíma hefur maður líka fundið fyrir áhuga annarra liða.

Ég hafði hug á að taka smá áhættu og reyna fyrir mér annars staðar eftir tvö ár hjá Larissa og þegar að Olympiacos lagði fram tilboð þá var þetta í raun algjör „no brainer“ fyrir mig persónulega. Ég get rétt ímyndað mér það, miðað við stærð félagsins og annað í þeim dúr, að krafan sé bikar á hverju einasta ári, í öllum keppnum.

Ég er spenntur að komast inn í þannig umhverfi og hlakka mikið til. Þetta er ein af ástæðum þess að ég ákvað að velja Olympiacos því ég vildi komast til félags með ákveðna sigurhefð og sögu í Evrópu. Ég held að svona umhverfi muni bara gera mér gott og þegar allt kemur til alls þá vonast ég til þess að halda áfram að bæta mig sem leikmaður eftir þetta skref.“

Viðtalið við Ögmund má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »