Rekinn af velli fyrir að bíta mótherja

Spánverjinn Patric gæti verið á leiðinni í langt bann.
Spánverjinn Patric gæti verið á leiðinni í langt bann. AFP

Knattspyrnumaðurinn Patric gæti átt yfir höfði sér langt keppnisbann eftir að hann var rekinn af velli í leik Lazio og Lecce í ítölsku efstu deildinni í gærkvöldi fyrir að bíta andstæðing.

Spánverjinn beit Giulio Donati, varnarmann Lecce, í öxlina seint í uppbótartíma er Lazio tapaði 2:1 en dómarinn var snöggur að vísa bakverðinum af velli. Hann hafði áður gefið andstæðingum vítaspyrnu.

Úrúgvæinn Luis Suárez var úrskurðaður í sjö leikja bann árið 2010 fyrir að bíta mótherja sinn í öxlina í viðureign Ajax og PSV í Hollandi. Hann fékk svo aftur bann þremur árum síðar þegar hann beit leikmann í viðureign Liverpool og Chelsea og þurfti þá að sitja hjá í tíu leiki. Allt er þegar þrennt er og Suárez ákvað að bíta andstæðing í þriðja sinn á heimsmeistaramótinu 2014, í leik Úrúgvæ og Ítalíu og var hann úrskurðaður í níu leikja bann fyrir það.

mbl.is