Skórnir á hilluna eftir 24 ára feril

Claudio Pizzaro í leik með Werder Bremen.
Claudio Pizzaro í leik með Werder Bremen. AFP

Gamla knattspyrnukempan Claudio Pizzaro hefur lagt skóna á hilluna eftir 24 ára feril sem framherji, lengst af í þýsku efstu deildinni. Perúmaðurinn verður 42 ára í vetur.

Pizzaro hóf ferilinn í heimalandinu árið 1996 en var keyptur til Werder Bremen í Þýskalandi árið 1999. Hann skipti yfir í Bayern München tveimur árum síðar og átti svo eftir að spila fyrir bæði lið aftur eftir tveggja ára dvöl á Englandi með Chelsea.

Hans síðasta verk var að hjálpa Werder Bremen að halda sæti sínu í efstu deild er liðið hafði betur gegn Heidenheim í umspili um fall. Pizzaro skoraði alls 236 deildarmörk í 596 leikjum en hann skoraði 197 mörk í 490 leikjum í þýsku efstu deildinni.

mbl.is