Tilbúinn aftur eftir tíu daga

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski Sofia.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski Sofia. Ljósmynd/Levski

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, leikur ekki síðustu þrjá leikina með Levski Sofia í úrslitakeppninni um meistaratitilinn í Búlgaríu.

Hann gekkst á mánudag undir aðgerð og er því ekki með í leik gegn Ludogorets í dag eða þeim  tveimur leikjum sem síðan eru eftir í deildinni. Levski er í öðru sæti en Ludogorets hefur þegar tryggt sér meistaratitilinn, enda með sextán stiga forskot á toppnum og hefur ekki tapað leik.

„Þetta var ekkert stórmál, kviðslit sem ég var búinn að spila með í einhvern tíma en var nauðsynlegt að laga. Ég má byrja að æfa eftir tíu daga eða svo og það verður ekkert sumarfrí því næsta tímabil byrjar strax 23. júlí. Ef allt fer samkvæmt áætlun ætti ég að vera klár þegar þar að kemur," sagði Hólmar við mbl.is í dag.

Hann er að ljúka sínu þriðja tímabili með Levski og á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

mbl.is