Klárlega með gæðin til þess að fara alla leið

Alfons Sampsted
Alfons Sampsted mbl.is/Kristinn Magnússon

Kópavogsbúinn Alfons Sampsted hefur slegið í gegn með Bodø/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð en liðið er í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eða átján eftir fyrstu sex umferðirnar.

Bakvörðurinn, sem er 22 ára gamall, hefur spilað allar mínútur liðsins í sumar en hann gekk til liðs við norska félagið í febrúar á þessu ári eftir þrjú ár í herbúðum Norrköping í Svíþjóð þar sem hann náði ekki að festa sig í sessi.

Alfons er uppalinn hjá Breiðabliki þar sem hann á að baki 25 leiki í efstu deild en hann lék sína fyrstu A-landsleiki í ár gegn Kanda og El Salvador í Bandaríkjunum í janúar.

„Það er erfitt að segja að þetta góða gengi hafi komið manni á óvart,“ sagði Alfons í samtali við Morgunblaðið. „Það eru mikil gæði í leikmannahópnum og það er sérstakt hvernig allir í liðinu eru á nákvæmlega sömu bylgjulengd. Það er eitthvað sem maður hefur aldrei upplifað áður.

Við erum með ákveðið leikplan sem allir fylgja og þá hafa allir leikmenn liðsins gríðarlega trú á því leikplani sem unnið er með. Við höfum lagt gríðarlega mikið á okkur, undanfarna mánuði, og manni finnst við hálfpartinn eiga þetta skilið með hliðsjón af allri vinnunni sem hefur farið í þetta.“

Nýtti tækifærið

Alfons gekk til liðs við Norrköping frá Breiðabliki árið 2017 og var lánaður þrívegis í sænsku neðri deildarinnar á tíma sínum í Svíþjóð, tvisvar til Sylvia og einu sinni til Landskrona. Þá var hann lánaður til Breiðabliks seinni hluta síðasta tímabils.

„Mér hefur gengið mjög vel að aðlagast lífinu í Noregi og ég bý að ákveðinni reynslu frá tíma mínum í Svíþjóð um hvernig það er að vera atvinnumaður í fótbolta í öðru landi. Kórónuveirufaraldurinn hafði ekki áhrif á æfingar hjá okkur þannig séð því við æfðum saman í litlum hópum á meðan faraldurinn stóð sem hæst og ég náði því að komast vel inn í hópinn strax á fyrsta degi.

Viðtalið við Alfons má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert