Má ekki spila með íslenska landsliðinu

Cloé Lacasse á fleygiferð með ÍBV.
Cloé Lacasse á fleygiferð með ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnukonan Cloé Lacasse má ekki leika með íslenska landsliðinu þrátt fyrir að hún hafi fengið íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári. Þetta staðfesti landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson í Pepsi Max-mörkunum á Stöð 2 sport. 

„Hún uppfyllir ekki kröfur FIFA um að vera lögleg með landsliðinu. Við erum að vinna í þeim hlutum með henni en á meðan hún uppfyllir ekki þær kröfur þá er lítið sem við getum gert í því.

Það er miður því hún er frábær leikmaður sem kæmi sterklega til greina í landsliðið og hún nýst okkur vel. Eins og staðan er núna er hún ekki leikmaður íslenska landsliðsins og kemur ekki til greina í landsliðið að svo stöddu," sagði Jón Þór. 

Cloé, sem er 27 ára, skoraði 54 mörk í 79 leikjum með ÍBV áður en hún fór til Benfica í Portúgal. Þar hefur hún verið einn besti leikmaður portúgölsku deildarinnar, en hún skoraði 23 mörk í 15 leikjum á síðustu leiktíð. 

mbl.is