Rúrik mögulega hættur í fótbolta

Rúrik Gíslason lék síðast með Sandhausen.
Rúrik Gíslason lék síðast með Sandhausen. Ljósmynd/svs1916.de

Knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason hefur verið án félags síðan hann fékk sig lausan frá þýska B-deildarfélaginu Sandhausen. Framtíð leikmannsins er óljós en hann hefur mögulega leikið sinn síðasta leik. 

„Ég vildi gæti svarað þessu og þú ert ekki sá eini sem spyrð. Mér finnst gaman í fótbolta og áhuginn er til staðar og metnaðurinn. Við sjáum hvað gerist. Ef ekkert spennandi kemur upp þá verður maður að fara gera eitthvað annað og það eru svo sem alveg verkefni á borðinu sem bíða ef fótboltinn fái stígvélið frá mér,“ sagði Rúrik í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957. 

Hefur hann fengið einhverjar fyrirspurnir frá félögum hér heima, en hann viðurkennir að það sé ekki spennandi að spila á Íslandi á þessum tímapunkti. „Eins og staðan er í dag þá kannski ekki en það getur alltaf breyst. Ég veit ekkert á hverju þessi ákvörðun er byggð hjá mér. Ég vildi bara koma heim og njóta lífsins,“ sagði Rúrik í Brennslunni. 

Rúrik, sem er 32 ára, hefur leikið sem atvinnumaður frá árinu 2005, fyrst með Charlton á Englandi, Viborg, OB og FC Kaupmannahöfn í Danmörku og loks Nürnberg og Sandhausen í Þýskalandi. Þá hefur hann leikið 53 landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. 

mbl.is