Staðan versnar hjá Birki

Birkir Bjarnason í eldlínunni í kvöld.
Birkir Bjarnason í eldlínunni í kvöld. Ljósmynd/Roma

Birkir Bjarnason og samherjar hans hjá Brescia eru í vondri stöðu í fallbaráttunni í ítölsku A-deildinni í fótbolta eftir 0:3-skell á  heimavelli gegn Roma í kvöld. 

Birkir var í byrjunarliði Brescia en var tekinn af velli á 58. mínútu, tíu mínútum eftir að Federico Fazio kom Roma yfir. Nikola Kalinic bætti við öðru marki Roma á 62. mínútu og Nicoló Zaniolo því þriðja á 74. mínútu og þar við sat. 

Brescia er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 21 stig, sjö stigum frá öruggu sæti þegar liðið á aðeins sex leiki eftir. 

mbl.is