Ungur Englendingur á óskalista Barcelona

Ryan Sessegnon í leik með Fulham.
Ryan Sessegnon í leik með Fulham. AFP

Spænska stórliðið Barcelona hefur áhuga á Ryan Sessegnnon, bakverðinum unga hjá Tottenham. Sessegnon er tvítugur og gekk til liðs við Tottenham á síðasta ári eftir að hafa vakið atyhgli fyrir frammistöðu sína í B-deildinni.

Tottenham borgaði 25 milljónir punda fyrir leikmanninn eftir að hann var í stóru hutverki Fulham árið áður. Njósnarar á vegum Barcelona voru að fylgjast með honum á þeim tíma en Lundúnaliðið varð fyrri til og keypti leikmanninn en nú eru forráðamenn Barcelona og Tottenham sagðir í viðræðum af Sky Sports.

Barcelona er mögulega tilbúið að láta Tottenham fá Nelson Semedo eða Samuel Umtiti í skiptum fyrir bakvörðinn sem gekk illa að vinna sér inn sæti í liði Tottenham í vetur. Hann hefur spilað 12 úrvalsdeildarleiki, aðeins byrjað fjóra og er José Mourinho, stjóri liðsins, sagður opinn fyrir skiptunum.

mbl.is