Ekkert tilboð borist frá Chelsea

Kai Havertz
Kai Havertz AFP

Svo virðist sem ekkert kauptilboð hafi borist í knattspyrnumanninn Kai Havertz, en margir héldu að kollegi hans hefði talað af sér á blaðamannafundi nýlega.

Havertz hefur verið sterklega orðaður við vistaskipti til Chelsea á Englandi en hann spilar með Leverkusen í Þýskalandi. Þýski miðillinn Bild sagði frá því fyrr í mánuðinum að sóknarmaðurinn hefði farið fram á sölu en Simon Rolfes, íþróttastjóri Leverkusen, segir ekkert félag hafa gert tilboð í leikmanninn.

„Við vitum af áhuga en ekkert tilboð hefur borist. Kai er okkar leikmaður enn þá,“ sagði Rolfes við Sky í heimalandinu. Þýski landsliðsmaðurinn Leroy Sané, sem gekk nýverið til liðs við Bayern München frá Manchester City, virtist tala af sér á blaðamannafundi í síðustu viku þegar hann var kynntur sem leikmaður Bayern.

„Þjóðverj­ar hafa alltaf átt marga frá­bæra unga leik­menn. Þeir eru óhrædd­ir við að gefa ung­um leik­mönn­um tæki­færi, eins og í til­fell­um Timos Werners og Kais Havertz, og Chel­sea er að gera mjög góð kaup í þeim báðum,“ sagði Sané á blaðamanna­fund­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert