Skotmark Liverpool staðfestir að hann vill fara

Thiago Alcantara.
Thiago Alcantara. AFP

Spænski knatt­spyrnumaður­inn Thiago Alcant­ara hefur sagt forráðamönnum Bayern München að hann vilji yfirgefa félagið í sumar eftir sjö ára veru í Þýskalandi en formaður félagsins hefur staðfest þetta. Þetta eru fréttir sem munu væntanlega vekja áhuga Liverpool, sem hefur verið sterklega orðað við leikmanninn í allan vetur.

„Thiago vill prófa eitthvað nýtt áður en hann lýkur ferlinum, við verðum að sætta okkur við það,“ sagði Karl-Heinz Rumenigge, formaður Bayern, í viðtali við Sky í Þýskalandi. Áður hafði miðillinn greint frá því að forráðamenn félagsins væru í viðræðum við Liverpool um kaupverð en enska félagið er sagt tilbúið að borga um 30 milljónir punda.

Thiago er 29 ára miðjumaður og hefur verið leikmaður Bayern München í sjö ár. Hann spilaði 24 leiki í þýsku 1. deild­inni á tíma­bil­inu þar sem hann skoraði þrjú mörk en hann hef­ur verið fastamaður í landsliði Spán­verja frá ár­inu 2011 þar sem hann hef­ur spilað 37 leiki og skorað í þeim tvö mörk. Hann er samningsbundinn félagin til næsta árs en vill ekki skrifa undir nýjan samning.

mbl.is