Íslenskur framherji eftirsóttur

Hólmbert Aron Friðjónsson er eftirsóttur.
Hólmbert Aron Friðjónsson er eftirsóttur. Ljósmynd/Aalesund

Íslenski knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson er eftirsóttur af félögum víðsvegar um Evrópu samkvæmt heimildum Forza Italian Football. 

Hólmbert hefur farið afar vel af stað með Aalesund í norsku úrvalsdeildinni og gerði hann þrennu gegn Start í síðasta deildarleik. Hefur framherjinn skorað átta mörk í níu deildarleikjum. 

Ítalski miðillinn greinir frá því að Parma, SPAL og Lecce hafi öll áhuga á Hólmberti en þau leika í ítölsku A-deildinni. Verður Hólmbert samningslaus í desember og verðmiðinn því ekki hár.

Gent í Belgíu og AZ Alkmaar í Hollandi hafa einnig sýnt Íslendingnum áhuga og er nokkuð ljóst að hann verður ekki mikið lengur í Noregi.

Hólmbert, sem hefur leikið tvo A-landsleiki, hefur spilað með HK, Fram, KR og Stjörnunni hér á landi og Celtic, Brøndby og Aalesund erlendis. 

mbl.is