Meistararnir töpuðu þremur af síðustu fjórum

Cristiano Ronaldo var lítt skemmt í kvöld.
Cristiano Ronaldo var lítt skemmt í kvöld. AFP

Ítalíumeistarar Juventus máttu þola 1:3-tap á heimavelli gegn Roma í lokaumferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta í kvöld. Er tapið það þriðja af síðustu fjórum leikjum hjá Juventus, en liðið hefur slakað verulega á eftir að titillinn var í höfn. 

Gonzalo Higuaín kom Juventus yfir strax á fimmu mínútu en Nikola Kalinic jafnaði fyrir Roma áður en Diego Perotti skoraði tvö mörk og tryggði Roma 3:1-sigur. Roma endar í fimmta sæti með 70 stig og Juventus vinnur deildina með 83 stig, einu stigi meira en Inter Mílanó. 

Inter tryggði sér annað sætið með 2:0-sigri á Atalanta á útivelli. Danilo D'Ambrosio og Ashley Young skoruðu mörkin. Atalanta endar í þriðja sæti með 78 stig, fjórum stigum á eftir Inter. 

Þá fögnuðu AC Milan og Napólí sigrum í lokaumferðinni. Milan hafði betur gegn Cagliari þar sem Zlatan Ibrahimovic skoraði og brenndi af víti í leik sem var líklegast hans síðasti með Milan. Napóli hafði betur gegn Lazio, sem hafði þegar tryggt sér sæti í Meistaradeild Evrópu. 

Juventus, Inter, Mílanó, Atalanta og Lazio fara í Meistaradeildina og Roma, Milan og Napólí fara í Evrópudeildina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert