Ísfirðing­ur­inn stoltur með fyrirliðabandið í Noregi

Emil Pálsson. Viðar Ari Jónsson.
Emil Pálsson. Viðar Ari Jónsson.

Knatt­spyrnumaður­inn Emil Páls­son hefur borið fyrirliðabandið hjá norska liðinu Sandefjord og verið lykilmaður í undanförnum leikjum en Emil og félagar mæta stórliði Molde í úrvalsdeildinni í dag.

Emil var í viðtalið við staðarblaðið Sandefjords Blad og ræddi þar um erfið meiðsli undanfarið og hversu stoltur hann er að bera fyrirliðabandið í fjarveru fyrirliðans Lars Groruds, sem er meiddur. „Ég er gríðarlega ánægður að vera í þessari stöðu, þetta er nokkuð sem ég hef lagt hart að mér fyrir. Á sama tíma er þetta aukin ábyrgð, innan sem utan vallar, en ég er tilbúinn í það,“ sagði Emil sem hefur spilað níu af ellefu leikjum Sandefjord í deildinni á tímabilinu.

Emil sleit hásin í desember 1018 og var lengi að ná sér aftur á strik en segist vera að nálgast sitt besta form. „Það tekur langan tíma að verða 100% eftir svona meiðsli en mér hefur liðið vel á tímabilinu,“ sagði Emil, sem er brattur fyrir leikinn í dag.

Sandefjord er í 10. sæti með tíu stig eftir ellefu leiki en liðið komst upp úr B-deildinni á síðustu leiktíð. Molde er í öðru sæti með 28 stig og er ríkjandi norskur meistari. „Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila, gegn þeim bestu,“ sagði Emil sem einnig spilar með Viðari Ara Jónssyni hjá Sandefjord.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert