Með sex stiga forskot á toppnum

Alfons Sampsted er að gera flotta hluti með Bodø/Glimt.
Alfons Sampsted er að gera flotta hluti með Bodø/Glimt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bodø/Glimt náði í dag sex stiga forskoti á toppi norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 3:2-heimasigri á Strømsgodset. Alfons Sampsted lék allan leikinn með Bodø/Glimt en hann hefur leikið alla tólf deildarleiki liðsins á tímabilinu frá upphafi til enda. 

Bodø/Glimt hefur komið á óvart í deildinni til þessa og unnið ellefu leiki, gert eitt jafntefli og ekki tapað leik. Er liðið með 34 stig, sex stigum meira en Molde sem er í öðru sæti. Ari Leifsson var allan tímann á bekknum hjá Strømsgodset sem er í níunda sæti með fimmtán stig. 

Hólmbert Aron Friðjónsson lék fyrstu 88 mínúturnar með Aalesund sem fékk skell á útivelli gegn Sarpsborg, 4:0. Davíð Kristján Ólafsson var allan tímann á bekknum og Daníel Leó Grétarsson ekki í leikmannahópi Aalesund. Er liðið í botnsætinu með sex stig. 

Íslendingaliðið Start fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu er liðið vann 3:0-stórsigur á Mjøndalen. Guðmundur Andri Tryggvason lék ekki með Start vegna meiðsla, en Jóhannes Harðarson þjálfar liðið. Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður í uppbótartíma hjá 
Mjøndalen. 

Þá tapaði Viking á heimavelli fyrir Odd, 1:2. Axel Óskar Andrésson var allan tímann á varamannabekknum hjá Víking. 

mbl.is