Snýr aftur til Manchester í vikunni

Chris Smalling.
Chris Smalling. AFP

Enska knatt­spyrnu­fé­lagið Manchester United á von á Chris Smalling aftur til Englands á næstu dögum en lánssamningur hans við Roma á Ítalíu er að renna út.

Smalling gerði eins árs lánssamning við ítalska félagið fyrir leiktíðina og var samningurinn svo framlengdur til ágústbyrjunar svo hann gæti lokið keppni í ítölsku efstu deildinni eftir hléið vegna kórónuveirunnar.

Roma fór fram á að framlengja samninginn út ágúst svo að Smalling gæti tekið þátt í Evrópudeildinni en forráðamenn United gengust ekki við því, enda Manchester-liðið sjálft í sömu keppni. Smalling mun engu að síður ekki geta keppt með United í keppninni, enda búinn að leika fyrir annað lið í henni.

mbl.is