Vill taka við liði í bestu deildum Evrópu

Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino AFP

Knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino er opinn fyrir því að taka við félagi í einu af fimm stærstu deildum Evrópu en hann hefur verið atvinnulaus síðan Tottenham sagði honum upp í nóvember á síðasta ári.

Hinn 48 ára Argentínumaður hafnaði starfstilboði frá Benfica í Portúgal og Mónakó í Frakklandi en hann er tilbúinn að starfa á Englandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Spáni. Hann vill þó aðeins taka við liði sem hefur sömu hugmyndafræði og hann um fótbolta.

„Ég vil finna félag sem hefur sömu hugmyndir og ég og mitt teymi. Ef félagið hefur trú á því að ég geti fært það nær árangri þá mun ég segja já,“ sagði Pochettino í viðtali við spænska dagblaðið El Pais. „Við aðlöguðum okkur vel að ensku úrvalsdeildinni en deildirnar á Spáni, Ítalíu, Frakklandi og Þýskalandi eru einnig mjög sterkar og svipaðar.“

Pochettino stýrði Tottenham í fimm og hálft ár, kom liðinu fjórum sinnum í Meistaradeild Evrópu og einu sinni alla leið í úrslit í þeirri keppni.

mbl.is