Evrópudeildin snýr loks aftur

Manchester United snýr aftur í Evrópudeildina í kvöld.
Manchester United snýr aftur í Evrópudeildina í kvöld. AFP

Eftir fimm mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins hefst Evrópudeildin í knattspyrnu á nýjan leik í dag. Keppnin verður með nokkuð breyttu sniði en áður og eftir að 16-liða úrslitin klárast í dag og á morgun mun restin af keppninni klárast með hraðmóti í Þýskalandi. Þá verður Meistaradeildin einnig spiluð í ágúst í Portúgal en alls verða 26 Evrópuleikir á dagskrá næstu átján daga.

Útsláttarkeppnin er almennt haldin með því sniði að liðin leika heima og að heiman og þurfa að hafa samanlagt betur yfir einvígin tvö til að komast í næstu umferð. Sex af átta fyrri viðureignum í 16-liða úrslitunum fóru fram 12. mars, rétt áður en öllu mótahaldi var aflýst. Í þessum sex leikjum verða einvígin kláruð með hefðbundnu sniði, það lið sem á eftir heimaleik tekur á móti andstæðingi sínum á heimavelli næstu tvö kvöld. Aftur á móti tókst ekki að spila fyrri leikinn í viðureignum Inter – Getafe og Sevilla – Roma. Uppgjör þeirra fer fram með nýja sniðinu, liðin mætast í einum leik í Þýskalandi þar sem sigurvegarinn fer áfram.

Þannig munu svo fjórðungsúrslitin öll vera leikin, með einum leik milli liða í borgunum Köln, Düsseldorf, Gelsenkirchen og Duisburg, 10. og 11. ágúst. Undanúrslitin verða svo spiluð 16. og 17. ágúst áður en úrslitaleikurinn sjálfur fer fram í Köln 21. ágúst.

Ragnar gæti mætt stórliði

Þrjú lið standa ansi vel að vígi nú þegar. Enska lið Manchester United vann 5:0-sigur á LASK í Austurríki og því ætti leikur liðanna á Old Trafford í kvöld að vera formsatriði. Basel vann 3:0-útisigur á Frankfurt í Þýskalandi í mars en liðin mætast í Sviss annað kvöld. Bayer Leverkusen er svo einnig í vænlegri stöðu eftir 3:1-sigur á Rangers í Skotlandi en liðin mætast á BayArena á morgun.

Staðan er töluvert jafnari í öðrum einvígum. Olympiacos og Wolves skildu jöfn í Grikklandi, 1:1, og mætast í Wolverhampton á Englandi annað kvöld. Ögmundur Kristinsson markvörður er genginn til liðs við grísku meistarana en getur ekki byrjað að spila með liðinu fyrr en á næstu leiktíð, því miður þar sem aðalmarkvörður þeirra, José Sá, er meiddur. Shahktar Donetsk vann 2:1-sigur í Þýskalandi gegn Wolfsburg og mætast liðin í Kiev í kvöld. Þá fær landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson og félagar hans í FC København Basaksehir í heimsókn frá Tyrklandi sem vann heimaleikinn, 1:0. Takist danska liðinu að snúa taflinu við í kvöld mun það að öllum líkindum mæta Manchester United í fjórðungsúrslitunum.

Það eru síðan tvo einvígi í 16-liða úrslitunum sem ekki eru byrjuð. Inter frá Ítalíu og spænska liðið Getafe mætast í Gelsenkirchen í kvöld og spila aðeins einn leik um að komast áfram, rétt eins og Sevilla og Roma gera í Duisburg annað kvöld.

Allir leikirnir fara auðvitað fram fyrir luktum dyrum eins og tíðkast hefur í kjölfar veirufaraldursins. Þá munu liðin geta skipt inn allt að fimm varamönnum í hverjum leik eins og leyft hefur verið í flestum deildarkeppnum í sumar og fari leikir í framlengingu má skipta einu sinni til viðbótar. Þótt Evrópuleikirnir á næstu vikum verði ekki eins og við þekkjum þá, er ánægjulegt að menn hafi fundið leið til að klára þessar virtu keppnir, sem skipta knattspyrnuna svo miklu máli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »