Manchester United rétt marði sigur

Philipp Wiesinger hjá LASK sækir að Brandon Williams, leikmanni Manchester …
Philipp Wiesinger hjá LASK sækir að Brandon Williams, leikmanni Manchester United, á Old Trafford í kvöld. AFP

Manchester United marði sigur á LASK frá Austurríki, 2:1, á Old Trafford í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld en enska liðið vann einvígið samanlagt 7:1. United er því, ásamt Inter frá Ítalíu, komið í fjórðungsúrslit sem spiluð verða í Þýskalandi 10. og 11. ágúst.

United vann fyrri leik liðanna í Austurríki 5:0 í mars en sá leikur fór fram fyrir luktum dyrum rétt áður en öllum keppnum var aflýst vegna kórónuveirunnar. Heimamenn stilltu því upp hálfgerðu varaliði á Old Trafford í dag og lentu í vandræðum gegn spræku liði LASK sem tók verðskuldaða forystu á 55. mínútu, Philipp Wiesinger með frábært mark utan teigs.

Jesse Lingard jafnaði hins vegar metin fyrir United aðeins tveimur mínútum síðar og Anthony Martial skoraði sigurmark heimamanna þremur mínútum fyrir leikslok.

Þá er Inter einnig komið áfram eftir 2:0-sigur gegn Getafe en leikur liðanna fór fram í Gelsenkirchen í Þýskalandi. Ástæðan er sú að ekki var hægt að spila fyrri leik liðanna í mars vegna kórónuveirunnar og því brugðið á það ráð að liðin myndu bara mætast einu sinni, en sama fyrirkomulag verður notað út restina af keppninni.

Romelu Lukaku kom Inter í forystu á 33. mínútu en Spánverjarnir fengu kjörið tækifæri til að jafna metin á 76. mínútu þegar Jorge Molina brenndi af vítaspyrnu. Daninn Christian Eriksen tryggði svo ítalska liðinu sigurinn á 83. mínútu, lokatölur 2:0.

Manchester United mætir Ragnari Sigurðssyni og félögum í FC Köbenhavn í 8-liða úrslitunum 10. ágúst. Inter mætir annað hvort Rangers eða Bayer Leverkusen sama dag.

Christian Eriksen fagnar marki sínu í kvöld með Danilo D'Ambrosio.
Christian Eriksen fagnar marki sínu í kvöld með Danilo D'Ambrosio. AFP
mbl.is