Ragnar og félagar í fjórðungsúrslit

Leikmenn FC Köbenhavn fagna einu marka sinna á Parken í …
Leikmenn FC Köbenhavn fagna einu marka sinna á Parken í kvöld. AFP

FC Köbenhavn er komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir 3:0-heimasigur á Basaksehir frá Tyrklandi á Parken í kvöld. Shahktar Donetsk er sömuleiðis komið áfram en liðið vann Wolfsburg á heimavelli með sömu markatölu en öll þrjú mörkin komu í blálokin.

Ragnar Sigurðsson er að glíma við meiðsli og var því ekki með Köbenhavn í kvöld en liðið var 1:0-undir frá því í fyrri leiknum í Tyrklandi sem var spilaður í mars. Eftir fimm mánaða hlé vegna kórónuveirunnar sneri Evrópudeildin hins vegar aftur í dag.

Jonas Wind kom heimamönnum yfir í leiknum og jafnaði einvígið strax á fjórðu mínútu en hann bætti svo við öðru marki á 53. mínútu. Rasmus Falk Jensen innsiglaði svo sigurinn eftir rúman klukkutíma.

Heimamenn í Úkraínu unnu 2:1-sigur í þýskalandi og voru því í vænlegri stöðu fyrir leik kvöldsins en hann var þó markalaus allt fram á 89. mínútu. Junior Moraes skoraði fyrsta mark kvöldsins á 89. mínútu og bætti við öðru marki í uppbótartíma eftir að Manor Soloman hafði skorað, lokatölur 3:0.

Fjórðungsúrslitin verða spiluð 10. og 11. ágúst. Ragnar og félagar mæta þar annað hvort LASK frá Austurríki eða Manchester United. Enska liðið er í 5:0-forystu frá fyrri leiknum en liðin mætast á Old Trafford í kvöld. Þá mun Shahktar Donetsk mæta Basel frá Sviss eða Frankfurt frá Þýskalandi. Þau lið mætast í Sviss á morgun en Basel er með 3:0-forystu frá fyrri leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert