Ljóst hverjir mætast á hraðmótinu

Raúl Jiménez skoraði sigurmarkið á Molineux-vellinum
Raúl Jiménez skoraði sigurmarkið á Molineux-vellinum AFP

16-liða úrslitunum í Evrópudeildinni í knattspyrnu lauk í kvöld með tveimur leikjum. Wolves er komið áfram eftir 1:0-sigur gegn Olympiacos í síðari viðureign liðanna en enska liðið vann einvígið samanlagt 2:1. Þá er Basel öruggt áfram eftir 1:0-sigur á Frankfurt í Sviss en liðið vann samanlagt 4:0.

Raúl Jiménez skoraði sigurmarkið á Molineux-vellinum strax á 8. mínútu úr vítaspyrnu en í Basel kom sigurmarkið ekki fyrr en á 88. mínútu, Fabian Frei skoraði það. Heimamenn voru þó nokkuð öruggir áfram eftir sannfærandi sigur í Þýskalandi í mars.

Fjórðungsúrslitin hefjast á mánudaginn en öll keppnin hér eftir fer fram í fjórum borgum í Þýskalandi. Undanúrslitin verða svo spiluð 16. og 17. ágúst áður en úrslitaleikurinn sjálfur fer fram í Köln 21. ágúst. Hér að neðan má sjá hvaða lið mætast.

8-liða úrslitin 11. og 12. ágúst
Shakhtar Donetsk (Úkraínu) - Basel (Sviss)
Manchester United (Englandi) - FC Köbenhavn (Danmörku)
Inter Mílanó (Ítalíu) - Bayer Leverkusen (Þýskalandi)
Wolves (Englandi) - Sevilla (Spáni)

mbl.is