Ólafur að fá Andra Rúnar til Esbjerg?

Andri Rúnar Bjarnason
Andri Rúnar Bjarnason

Knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason gæti verið á leið til danska félagsins Esbjerg, sem Ólafur Kristjánsson er nýbyrjaður að þjálfa. Andri Rúnar hefur verið á mála hjá Kaisers­lautern í þýsku C-deild­inni undanfarið ár.

Það er þýska staðarblaðið Die Rheinpfalz sem segir frá þessu og kemur þar fram að Andri Rúnar hafi ekki tekið þátt í fyrstu æfingu Kaiserslautern á undirbúningstímabilinu í dag. Framherjinn hefur átt erfitt uppdráttar í Þýskalandi en hann spilaði aðeins tíu leiki á síðustu leiktíð og skoraði ekki mark en missti mikið úr vegna meiðsla. Þar áður skoraði hann 19 mörk í 35 deildarleikjum með Helsingborg í Svíþjóð.

Samkvæmt fréttinni er Andri Rúnar á leiðinni til Esbjerg, sem féll nýverið niður í dönsku fyrstu deildina og fékk Ólaf Kristjánsson til starfa frá FH.

mbl.is