Sevilla og Leverkusen í fjórðungsúrslit

Leikmenn Leverkusen fagna í kvöld.
Leikmenn Leverkusen fagna í kvöld. AFP

Sevilla og Leverkusen tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu og gerðu það nokkuð örugglega.

Leverkusen vann 1:0-heimasigur á Rangers í Þýskalandi þar sem Moussa Diaby skoraði sigurmark leiksins en Þjóðverjarnir unnu einvígið samanlagt 4:1, eftir að hafa unnið 3:1 í Skotlandi í mars áður en hlé var gert á keppninni vegna kórónuveirunnar.

Sevilla vann 2:0-sigur á Roma en sá leikur fór einnig fram í Þýskalandi, í borginni Duisburg. Ástæðan fyrir því er sú að liðin gátu ekki spilað fyrri leikinn í viðureign sinni fyrr á árinu og mættust því undir nýja fyrirkomulaginu.

Öll keppnin mun nefnilega klárast í Þýskalandi á næstu vikum með hraðmóti í nokkrum borgum þar sem leikið verður fyrir luktum dyrum. Leverkusen mætir Inter Mílanó 10. ágúst og Sevilla mætir Olympiacos eða Wolves en þau mætast í kvöld.

mbl.is