Fyrsti stóri titillinn þegar í höfn

Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar fagna franska bikarmeistaratitlinum í …
Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar fagna franska bikarmeistaratitlinum í kvöld. Ljósmynd/Damien LG/Lyon

Landsliðsfyrirliðinn í knattspyrnu, Sara Björk Gunnarsdóttir, er nú þegar búin að vinna stóran titil með franska meistaraliðinu Lyon. 

Lyon sigraði í kvöld í frönsku bikarkeppninni en liðið mætti öðru stórliði, Paris St. Germain, í úrslitaleiknum sem fram fór í Auxerre.

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma né framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um úrslit. Þar hafði Lyon betur 4:3. 

Sara Björk kom inn á sem varamaður hjá Lyon eftir 74 mínútur. 

Þetta er þriðji stóri titillinn hjá Söru í sumar. Hún varð þýskur meistari með Wolfsburg fjórða árið í röð og síðan bikarmeistari, enda þótt hún hafi misst af sjálfum úrslitaleiknum þar sem hún var farin til Lyon þegar hann fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert