Bolvíkingurinn til Danmerkur

Andri Rúnar Bjarnason er orðinn leikmaður Esbjerg.
Andri Rúnar Bjarnason er orðinn leikmaður Esbjerg. Ljósmynd/Esbjerg

Knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason hefur gert tveggja ára samning við Esbjerg í Danmörku. Kemur hann til félagsins frá Kaiserslautern í Þýskalandi. 

Ólafur Kristjánsson tók við Esbjerg á dögunum og mun framherjinn því spila fyrir landa sinn, en Esbjerg féll úr dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og niður í B-deildina. Keppni í deildinni hefst 10. september.

Andri Rúnar er 29 ára og lék hann tíu leiki með Kaiserslautern í C-deild Þýskalands á síðasta tímabili en tókst ekki að skora mark. Hann missti mikið úr vegna meiðsla á tímabilinu.

Varð hann markakóngur í sænsku B-deildinni árið 2018 er hann gerði 16 mörk í 27 leikjum með Helsingborg og í efstu deild hér á landi árið á undan er hann skoraði 19 mörk í 22 leikjum með Grindavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert