Bruno klárar yfirleitt dæmið

Ole Gunnar Solskjaer þakkar Karl-Johan Johnsson markverði FC Kaupmannahafnar fyrir …
Ole Gunnar Solskjaer þakkar Karl-Johan Johnsson markverði FC Kaupmannahafnar fyrir leikinn. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var skiljanlega kátur eftir 1:0-sigur lærisveina sinna á FC Kaupmannahöfn í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld í framlengdum leik. 

„Þetta er þriðji undanúrslitaleikurinn sem við komumst í á tímabilinu og við erum hæstánægðir með að komast áfram. Við áttum þetta skilið, markvörðurinn þeirra átti ótrúlegan leik og svo skutum við nokkrum sinnum í stöngina,“ sagði Solskjær við BT Sports eftir leik. 

Þetta hefði getað endað í vítaspyrnukeppni, en við vörðum vel og þeir gerðu okkur erfitt fyrir stundum. Þeir voru skipulagðir og með gott plan. Við vissum að það yrði erfitt að brjóta þá niður, svo við þurftum að vera þolinmóðir. Við vissum að færin kæmu,“ bætti hann við. 

Bruno Fernandes skoraði sigurmark United úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu framlengingarinnar. Fernandes valhoppar yfirleitt að boltanum, en ekki í kvöld. „Hann veit að markverðir bíða eftir stökkinu, en hann á fleiri brögð upp í erminni. Bruno klárar yfirleitt dæmið,“ sagði Solskjær. 

mbl.is