Íslenski táningurinn bálreiður

Ísak Bergmann Jóhannesson var pirraður.
Ísak Bergmann Jóhannesson var pirraður. Ljósmynd/Norrköping

Íslenski knattspyrnumaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson var allt annað en sáttur við störf Kristoffers Karlsson dómara leiks Norrköping og Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 

Ísak skoraði annað mark Norrköping í 2:3-tapi en hann fékk einnig dæmda á sig vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Karlsson dómari mat það sem svo að Ísak hafi fengið boltann í höndina, en sjá má í endursýningum að Ísak fékk boltann í brjóstið. 

„Ég fékk boltann í öxlina og dómarinn baðst afsökunar. Hann gerði hins vegar fleiri mistök og markið sem Lars Gerson skoraði átti að standa. Þegar við lítum á allan leikinn þá er erfitt að vinna þegar öll vafaatriðin féllu með Helsingborg,“ sagði Ísak pirraður við SVT-Sport. 

Jonas Eriksson, dómarasérfræðingur SVT, skildi pirring Ísaks. „Dómarinn dæmdi víti því hann sá illa það sem gerðist. Hann hélt að boltinn hefði farið í höndina á leikmanninum en ég er sannfærður um að hann hafi gert mistök,“ sagði Eriksson. 

mbl.is