Luis Suárez til liðs við Heimi?

Luis Suárez
Luis Suárez AFP

Knattspyrnustjarnan Luis Suárez, leikmaður Barcelona á Spáni, og Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, gætu orðið samherjar í vetur ef marka má blaðamann beIN Sports frá Katar.

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, þjálfar lið Al Arabi í Katar og Aron Einar er leikmaður liðsins en að sögn blaðamannsins Mitch Freeleys hefur félagið mikinn áhuga á að klófesta Úrúgvæjann sem er einn frægasti knattspyrnumaður heims. Hann bætir þó við að erfitt yrði að fá leikmanninn til félagsins.

Suárez spilaði um árabil með Liverpool áður en hann gekk til liðs við Barcelona sumarið 2014. Hann hefur orðið spænskur meistari fjórum sinnum og unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni og á líka 113 landsleiki fyrir Úrúgvæ, skorað í þeim 59 mörk. Hann á ár eftir af samningi sínum hjá Barcelona og er orðinn 33 ára gamall.

mbl.is