Íslenski markvörðurinn færir sig upp um deild

Elías Rafn Ólafsson
Elías Rafn Ólafsson Ljósmynd/Midtjylland

Markvörður­inn ungi Elías Rafn Ólafs­son hefur gengið til liðs við FC Fredericia að láni frá Midtjylland í Danmörku. Hann mun því spila í dönsku B-deildinni á næsta tímabili.

Elías var lánsmaður hjá Aarhus Fremad í C-deildinni á síðustu leiktíð og var meðal annars valinn besti markvörður fyrri hluta tímabilsins af dagblaðinu Århus Stiftsti­dende sem er gefið út í Árós­um.

„Eftir frábæran árangur í Aarhus Fremad á síðustu leiktíð mun Elías Rafn verja mark FC Fredericia í B-deildinni,“ segir í tilkynningu frá Midtjylland á heimasíðu félagsins. Elías er tvítugur og hefur hann spilað alls sjö landsleiki fyrir yngri landslið Íslands en hann var keypt­ur til Midtjyl­l­and frá Breiðabliki fyrir tveimur árum.

mbl.is