PSG í undanúrslit eftir ótrúlegan lokakafla

Neymar sleppur einn í gegn í kvöld.
Neymar sleppur einn í gegn í kvöld. AFP

Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir ótrúlegan 2:1-sigur á Atalanta frá Ítalíu í Lissabon. 

Var Atalanta með 1:0-forystu þegar aðeins ein mínúta var eftir en PSG skoraði tvö mörk í blálokin og tryggði sér dramatískan sigur. 

Mario Pasalic kom Atalanta yfir á 26. mínútu með fallegri afgreiðslu eftir sendingu David Zapata og var staðan í hálfleik 1:0. 

PSG komst oft í fína stöðu en illa gekk að skapa virkilega gott færi í seinni hálfleik. Það kom þó loks nokkrum sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma þegar Marquinhos fékk boltann inn í teignum eftir sendingu frá Neymar og skoraði af öryggi. 

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði varamaðurinn Eric Choupo-Moting af sama færi eftir góðan undirbúning frá Neymar og Kylian Mbappé og PSG fagnaði sætum sigri og sæti í undanúrslitum í fyrsta sinn síðan 1995. 

PSG mætir annað hvort Leipzig frá Þýskalandi eða Atlético Madríd frá Spáni í undanúrslitum en þau eigast við annað kvöld. 

Atalanta 1:2 PSG opna loka
90. mín. Marquinhos (PSG) skorar 1:1 - Neymar kemur boltanum fyrir markið og landi hans Marquinhos potar boltanum í netið af stuttu færi! Þetta mark kom þegar nokkrar sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma! Við fáum væntanlega framlengingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert