Stefni á að ná eins langt og hægt er að ná

Ísak Bergmann Jóhannesson
Ísak Bergmann Jóhannesson Ljósmynd/Norrköping

„Ég er nokkuð ánægður með frammistöðuna og spilamennskuna en maður vill alltaf gera betur. Ég er þannig karakter að ég vil alltaf gera betur,“ sagði ákveðinn Ísak Bergmann Jóhannesson, 17 ára knattspyrnumaður frá Akranesi, í samtali við Morgunblaðið. Ísak hefur síðustu vikur og mánuði vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Norrköping í Svíþjóð, en hann er fastamaður í liðinu þrátt fyrir ungan aldur. Ísak kom til Norrköping árið 2018, en kom aðeins einu sinni inn á sem varamaður á síðustu leiktíð. Ísak hefur hins vegar spilað 13 af 14 leikjum Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, 11 frá byrjun, og skorað í þeim tvö mörk. Ísak skoraði annað mark Norrköping í 2:3-tap fyrir Helsingborg í síðustu umferð með glæsilegu skoti.

Ísak og félagar byrjuðu vel á tímabilinu og voru í toppsætinu framan af. Liðið hefur hins vegar tapað tveimur í röð og ekki unnið í síðustu fjórum. Ísak er ánægður með að fá að spila mikið, en skiljanlega minna kátur með gengi liðsins að undanförnu. „Ég setti mér það markmið að komast inn í liðið sem fyrst og það hefur gengið eftir, en því miður hefur okkur ekki gengið nægilega vel. Við viljum gera betur og fara að vinna leiki á ný. Við höfum ekki verið nægilega góðir að loka leikjunum sem við erum að spila. Við erum með ungt lið og að mínu mati erum við með besta fótboltaliðið í þessari deild, en þurfum að kunna að stjórna leikjum betur.“

Verður margra milljarða virði

Ísak hefur vakið mikla athygli sænskra fjölmiðla. Robert Laul hjá Aftonbladet lýsti Ísaki m.a. sem leikmanni sem fólk mun segja barnabörnunum sínum frá og það væru forréttindi að fá að fylgjast með honum. „Það eru sennilega ekki komin mörg hár á bringuna á honum, en hann hefur nú þegar náð fullkomnum tökum á því að koma boltanum í netið,“ skrifaði Laul um Ísak. „Hann verður margra milljarða virði og ég á ekki von á að hann verði lengi hjá Norrköping,“ skrifaði Laul enn fremur. Þá valdi Aftonbladet Ísak efnilegasta leikmann Svíþjóðar og var hann valinn leikmaður 6. umferðar sænsku úrvalsdeildarinnar hjá Studio Allsvenskan.

Pælir lítið í umfjölluninni

Leikmaðurinn ungi segist ekki velta sér mikið upp úr athyglinni utan frá. „Ég hef ekki tekið mikið eftir en þó eitthvað. Það er gaman þegar maður stendur sig vel, en ég pæli annars lítið í þessari umfjöllun. Þegar það er umfjöllun í kringum mann verður maður að einbeita sér að sjálfum sér og að hjálpa liðinu eins mikið og maður getur. Ég læt umfjöllunina ekki hafa áhrif á mig.“

Viðtalið við Ísak má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert