Bayern skoraði 8 gegn Barcelona

Philippe Coutinho fagnar marki gegn sínum fyrrum samherjum í Barcelona …
Philippe Coutinho fagnar marki gegn sínum fyrrum samherjum í Barcelona í kvöld en hann skoraði tvívegis. AFP

Þýsku meistararnir í Bayern München gersamlega léku sér að öðru stórveldi, FC Barcelona, í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Lissabon í kvöld. 

Bæjarar skoruðu fjögur mörk í hvorum hálfleiks og unnu 8:2. Hreint ótrúlegar tölur en Bayern hefði þess vegna getað skorað fleiri mörk því liðið átti 23 skottilraunir á mark Barcelona. 

Thomas Müller skoraði tvívegis fyrir Bayern eins og Philippe Coutinho sem lék þó aðeins síðasta korterið. Coutinho er á lánssamningi hjá Bayern en er í eigu Barcelona. 

Robert Lewandowski lét eitt mark duga að þessu sinni en einnig skoruðu þeir Ivan Perisic, Serge Gnabry og Joshua Kimmich. 

Luis Suarez skoraði síðara mark Barcelona og minnkaði þá muninn í 2:4 en fyrra markið var sjálfsmark og jafnaði Barcelona þá 1:1 eftir aðeins sjö mínútur. 

Bayern mætir annað hvort Manchester City eða Lyon í undanúrslitum. Bayern München lék sér einnig að Chelsea í báðum leikjunum í 16-liða úrslitum og er því á mikilli siglingu í keppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert