Sýn Ólafs hafði áhrif á ákvörðun Andra Rúnars

Andri Rúnar Bjarnason er orðinn leikmaður Esbjerg.
Andri Rúnar Bjarnason er orðinn leikmaður Esbjerg. Ljósmynd/Esbjerg

Bolvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason færði sig á dögunum frá Þýskalandi til Danmerkur. Gerði hann tveggja ára samning við Esbjerg sem leikur í dönsku b-deildinni í knattspyrnu. Andri mun leika undir stjórn landa síns, Ólafs Kristjánssonar, sem nýlega sagði upp störfum hjá FH til að taka við Esbjerg.

Andri verður þrítugur í nóvember og þarf að komast í leikæfingu á ný eftir að hafa kynnst mótlæti í atvinnumennskunni í Þýskalandi. Hann fékk ekki stórt hlutverk hjá Kaiserslautern í þýsku c-deildinni og félagið var tilbúið að leyfa honum að róa á önnur mið.

„Það var í raun vilji beggja aðila að ég færi annað. Kaiserslautern og Esbjerg gerðu svo samkomulag sín á milli,“ sagði Andri þegar Morgunblaðið hafði samband við hann en Andri átti ár eftir af samningi sínum við Kaiserslautern.

„Það sem heillaði mig mest við Esbjerg var sýn Óla [Ólafs Kristjánssonar knattspyrnustjóra] og hvernig hann sér fyrir sér að ég komi inn í þær áætlanir. Hann lýsti því hvaða hugmyndir hann hefur fyrir liðið. Við erum sammála um að ég þurfi að vinna í að finna aftur þann leikmann sem ég var en týndi eiginlega síðasta árið. Það heillaði mig hvað mest en auk þess er þetta stórt félag sem ætti að vera í efstu deild í Danmörku. Ég tel að þetta sé góður tímapunktur til að koma til Esbjerg og taka þátt í uppbyggingunni,“ sagði Andri og þegar hann vissi af áhuga Ólafs þá skoðaði hann lítið aðra möguleika.

„Ég fór ekki í aðrar viðræður vegna þess að mér leist vel á Esbjerg. Það getur verið að mér hefði boðist eitthvað annars staðar á Norðurlöndunum en það náði alla vega ekki til mín. Eftir að ég hitti Óla þá fannst mér þetta spennandi og ákvað þá að koma hingað,“ sagði Andri en hann hafði lokið fyrstu æfingu sinni með danska liðinu þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Viðtalið við Andra Rúnar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert