„Við skömm­umst okk­ar“

Gerard Pique gengur hnugginn af velli í Lissabon í gær.
Gerard Pique gengur hnugginn af velli í Lissabon í gær. AFP

„Við erum niðurbrotnir, við skömmumst okkar,“ sagði niðurlútur Gerard Pique, leikmaður Barcelona, eftir 8:2-niðurlægingu gegn Bayern München í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.

Bæj­ar­ar skoruðu fjög­ur mörk í hvor­um hálfleik sem eru hreint ótrú­leg­ar töl­ur en Bayern hefði þess vegna getað skorað fleiri mörk því liðið átti 23 skottilraun­ir á mark Barcelona. „Við höfum ekki efni á að spila svona, þetta er ekki í fyrsta, annað eða þriðja skiptið sem eitthvað svona gerist,“ bætti spænski varnarmaðurinn við en Reuters segir frá.

„Það þarf eitthvað að breytast, og ef nýtt fólk kemur inn þá er ég sjálfur ekki ósnertanlegur. Ég verð sá fyrsti til að fara ef þess þarf vegna þess að við virðumst vera komnir á lægsta stig.“

mbl.is