Fögur er hlíðin – hvergi mun Messi fara

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi, fyrirliði FC Barcelona, hefur ákveðið að vera áfram í herbúðum félagsins. Spænska blaðið Marca greinir frá þessu en tíu dagar eru síðan Messi óskaði eftir því við félagið að fá að róa á önnur mið. 

Messi sendi fax til félagsins fyrir tíu dögum þar sem óskin var sett fram. Erfitt hefur verið fyrir fjölmiðla að átta sig á hvað bjó að baki. Vildi Messi raunverulega yfirgefa eina félagið sem hann hefur spilað fyrir eða bjó eitthvað annað að baki? Mögulega einhver pólitík innan félagsins eða eitthvað þess háttar? Við slíkum spurningum hafa engin svör borist þar sem nánast ekkert hefur heyrst frá Messi eða aðilum honum tengdum. 

Nú bregður hins vegar svo við að Messi veitti netmiðlum Goal.com viðtal þar sem fram kemur að málið snúist um klausu í samningi hans eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Hann segist frekar ætla að vera áfram hjá félaginu sem hafi reynst honum svo vel en að draga það fyrir dómstóla og deila þar um samningsklausuna.

Um hvað snýst deilan?

Að keppnistímabilinu loknu hafði Messi tíma til að yfirgefa félagið á frjálsri sölu. Klausunni fylgdu dagsetningar sem miðaðar voru við júní þegar deildin fer í frí. Keppnistímabilið tók hins vegar aðra stefnu vegna kórónuveirunnar og lauk því ekki fyrr en í ágúst þegar Meistaradeildinni lauk. Messi segist hafa staðið í þeirri trú að hann gæti farið á frjálsri sölu en félagið var ekki sama sinnis og vísaði í dagsetningarnar varðandi klausuna. Messi segist ekki ætla að fara með málið lengra og verður áfram hjá félaginu enda sé útilokað að nokkurt félag muni greiða þá upphæð sem Barcelona vill fá fyrir leikmanninn. 

„Eina færa leiðin væri að fara með málið fyrir dómstóla. Það myndi ég aldrei gera Barca vegna þess að ég elska félagið og það hefur gefið mér allt frá því ég kom til Barcelona. Þetta er félagið mitt og hér hef ég eignast gott líf. Barca hefur gefið mér allt og ég hef gefið félaginu allt. Þar af leiðandi hugsaði ég ekki einu sinni út í að fara í mál við félagið. Ég elska Barcelona og ég mun ekki finna betri stað til að búa. Engu að síður á ég rétt á því að taka mínar ákvarðanir sjálfur. Ég hafði hugsað mér að finna mér nýjar áskoranir og ný markmið. Á morgun get ég snúið aftur því ég hef allt sem ég þarf hjá Barcelona.“

Sonurinn brást illa við

Messi talar í viðtalinu um sína nánustu og segir fjölskylduna skipta máli þegar teknar eru ákvarðanir um búferlaflutninga milli landa. 

„Því fylgdi hrikalegt drama þegar ég tilkynnti eiginkonunni og börnunum að mig langaði til að fara annað. Þau grétu öll og börnin vildu ekki skipta um skóla, hvað þá flytja frá Barcelona. Þrátt fyrir það horfði ég á stöðuna öðrum augum en þau vegna þess að ég vil keppa í hæsta gæðaflokki og eiga möguleika á að vinna Meistaradeildina. Maður getur ekki alltaf unnið þá keppni því hún er mjög erfið en maður vill eiga möguleika. Alla vega gera alvöruatlögu að því að vinna keppnina en ekki brotna sem lið eins og gerðist í Róm, Liverpool og Lissabon. Þau úrslit höfðu áhrif á þessar vangaveltur mínar.“

Messi tekur þó fram að eiginkonan hafi staðið með honum en sonur hans tók slaginn gegn gamla manninum.

„Mateo er enn svo ungur að hann gerir sér ekki grein fyrir því hvað felst í því að flytja eitthvað annað. Thiago er eldri og hann heyrði einhverja umfjöllun um þetta í sjónvarpinu. Ég hafði ekki viljað segja við hann að svo gæti farið að við myndum flytja, hann þyrfti að skipta um skóla og eignast nýja vini. Hann grét og sagðist ekki vilja flytja. Eins og ég sagði áðan var þetta verulega erfitt,“ hefur Goal.com meðal annars eftir Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert