Fetar í fótspor liðsfélaga síns og biðst afsökunar

Mason Greenwood í baráttunni á Laugardalsvelli á laugardaginn síðsta.
Mason Greenwood í baráttunni á Laugardalsvelli á laugardaginn síðsta. AFP

Mason Greenwood, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United og enska landsliðsins, hefur beðist afsökunar á framferði sínu á Íslandi á dögunum en hann braut íslenskar sóttvarnareglur á sunnudagskvöldið síðasta.

Sóknarmaðurinn var í enska landsliðshópnum sem vann 1:0-sigur gegn Íslandi í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli á laugardaginn en Greenwood kom inn á sem varamaður í leiknum í sínum fyrsta landsleik.

Greenwood, ásamt Phil Foden liðsfélaga sínum í enska landsliðinu, fékk tvær íslenskar stúlkur upp á herbergi til sín á Hótel Sögu á sunnudaginn en leikmenn og starfslið Englands fengu undanþágu frá íslenskum stjórnvöldum og voru því í vinnusóttkví hér á landi.

„Ég hef fengið tíma til þess að íhuga það sem gerðist og það eina sem ég get gert er að biðjast afsökunar á öllu fjaðrafokinu sem ég hef valdið,“ sagði leikmaðurinn í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Það var óábyrgt af mér að brjóta sóttvarnareglur sem eru til þess gerðar að vernda bæði mig, leikmenn liðsins og aðra starfsmenn.

Ég vil sérstaklega biðja Gareth Southgate afsökunar á hegðun minni því ég brást honum algjörlega eftir að hann sýndi mér mikið traust með því að velja mig í landsliðið.

Ég hef sjaldan verið jafn stoltur og þegar ég kom inn á í mínum fyrsta landsleik og ég lofa fjölskyldu minni, stuðningsmönnum, Manchester United og landsliðinu að ég mun læra af þessum mistökum mínum,“ bætti Greenwood við.

mbl.is