Ótrúleg endurkoma Viðars í Ósló

Viðar Örn Kjartansson í leik með Rubin Kazan í rússnesku …
Viðar Örn Kjartansson í leik með Rubin Kazan í rússnesku úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Rubin Kazan

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson átti hreint ótrúlega endurkomu í norska fótboltann í kvöld þegar hann spilaði sinn fyrsta leik með Óslóarliðinu Vålerenga í sex ár.

Viðar varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar á fyrsta ári sínu í atvinnumennsku árið 2014 þegar hann skoraði 25 mörk fyrir Vålerenga.

Hann sneri aftur til félagsins á dögunum frá Yeni  Malatyaspor í Tyrklandi og fór beint í byrjunarliðið fyrir leik liðsins gegn Brann í kvöld.

Staðan var 1:1 eftir átta mínútna leik en þá tók Viðar til sinna ráða. Hann skoraði þrennu á aðeins átta mínútum og staðan var orðin 4:1 fyrir Vålerenga þegar 23 mínútur voru búnar af leiknum.

Liðið bætti við fimmta markinu fyrir hlé og Viðari var síðan skipt af velli á 64. mínútu en Matthías Vilhjálmsson kom í hans stað. Staðan er enn 5:1 þegar langt er liðið á leikinn.

Uppfært:
Leikurinn endaði 5:1 fyrir Vålerenga.

mbl.is