Markahæstur í deildinni

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Astana.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Astana. Ljósmynd/Astana

Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er markahæstur í úrvalsdeildinni í Kasakstan eftir að hafa skorað bæði mörk Astana í útisigri gegn Ordabasy, 2:1, í sjöundu umferð deildarinnar í gær.

Rúnar hefur skoraði fimm mörk í þeim sex leikjum sem hann hefur spilað á tímabilinu og hann var útnefndur maður leiksins hjá Astana í leiknum í gær. Þar var hann jafnframt stigahæstur allra samkvæmt stigaútreikningi og var m.a. með 91 prósent hlutfall heppnaðra sendinga í leiknum, flestar þeirra á vallarhelmingi andstæðinganna.

Astana er í öðru sæti deildar, sjö stigum á eftir toppliðinu Kairat Almaty og á einn leik til góða. Rúnar og félagar taka á fimmtudaginn á móti Buducnost, meistaraliði Svartfjallalands, í 2. umferð Evrópudeildar UEFA en Astana féll út úr 1. umferð Meistaradeildar Evrópu með ósigri gegn Dinamo Brest í Hvíta-Rússlandi.

„Ég er viss um að við vinnum leikinn, það kemur ekkert annað til greina. Við erum með mjög reynt lið og svo erum við á heimavelli sem er okkur í hag. Í heildina erum við með betra lið og þurfum að sýna það á fimmtudaginn,“ segir Rúnar í viðtali á heimasíðu Astana.

Astana lék á laugardaginn fyrsta leikinn undir stjórn nýs þjálfara en Englendingurinn Paul Ashworth tók við liðinu 26. ágúst. Hann hafði verið tæknilegur ráðgjafi hjá félaginu frá 2019. Spurður um Ashworth sagði Rúnar. „Paul er reyndur þjálfari og veit hvað hann á að gera. Hann þekkir leikmennina og okkar stöðu vel. Æfingar undir hans stjórn hafa gengið vel og við unnum fyrsta leikinn. Ég á von á að við eigum bara eftir að bæta okkur,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert