Áhorfendur leyfilegir í Þýskalandi

Þýskalandsmeistarar Bayern München hefja leik í þýsku 1. deildinni á …
Þýskalandsmeistarar Bayern München hefja leik í þýsku 1. deildinni á föstudaginn kemur. AFP

Þýska 1. deildin, Bundesligan, hefst á nýjan leik eftir sumarfrí á föstudaginn kemur þegar meistarar Bayern München fá Schalke í heimsókn.

Í dag tilkynntu þýsk yfirvöld að áhorfendur yrðu aftur leyfðir á íþróttaviðburðum í landinu en hvert lið má nýta 20% af stúkusætum sínum. Þá þurfa félögin að virða bæði fjarlægðartakmarkanir á milli fólks og almennar sóttvarnareglur.

Sala matvæla og áfengis á leikvöngunum verður bönnuð og stuðningsmenn gestaliða fá ekki að mæta á útileiki hjá sínum liðum.

Nýju reglurnar taka gildi samstundis fyrir allar atvinnumannadeildir Þýskalands. Staðan verður svo endurmetin að nýju í lok október.

mbl.is